Líf mitt með öðrum: Matreiðsla og spjaldtölva

Markmið námskeiðsins er að auka lífsgæði og vald einhverfs fólks yfir aðstæðum sínum, sjálfsvitund og tjáningu vilja og skoðana í tengslum við matreiðslu. Einnig að efla félagsleg samskipti og þátttöku á jafningjagrunni - þróa leiðir til virkar þátttöku í eigin lífi og með öðrum. Að þátttakendur upplifi að vera öruggir og eigi ánægjulega samveru.

Á námskeiðinu verða eldaðir einfaldir og hollir réttir. Þátttakendur kynnast helstu eldhúsáhöldum, algengu hráefni og taka þátt í sameiginlegu borðhaldi. Unnið er eftir myndrænum/skrifuðum uppskriftum. Jafnframt verður fræðsla um hollt mataræði sett upp á myndrænan hátt.

Spjaldtölvan er notuð til að velja og búa til myndrænar frásagnir af námskeiðinu. Einnig verða kannaðar leiðir til að vinna með uppskriftir á rafrænu formi og útbúa innkaupalista í spjaldtölvu.

Áhersla er lögð á gott samstarf við heimili þátttakanda til þess að stuðla að því að námið nýtist sem best í daglegu lífi. Reynslan sýnir mikilvægi þess að tengiliður þátttakandans sé virkur á námskeiðinu meðal annars með þátttöku í kennslustundum og eftirfylgd viðfangsefna heima.

Kennt er í litlum hópi einu sinni í viku, aðra hverja viku í matreiðslu og hina í spjaldtölvu, 2 - 3 kennslustundir í senn. Gert er ráð fyrir heimavinnu í samstarfi við tengil þátttakanda.

Bréf sem staðfestir inntöku á námskeið mun berast eftir miðjan desember.

Staður: Fjölmennt
Verð: 32.500
Tími: 18 vikur