Námsbrautin Líf mitt með öðrum

Skýrsla um námsbrautina „Líf mitt með öðrum“

Hér er hægt að lesa um námsbrautina, tilurð hennar, hugmyndafræðilegan bakgrunn, markmið, undirbúning og uppbyggingu námsins. 

Hér er hægt að lesa um námsbrautina, tilurð hennar, hugmyndafræðilegan bakgrunn, markmið, undirbúning og uppbyggingu námsins. 

Fyrirlestur um námsbrautina „Líf mitt með öðrum“

Hér má sjá glærur og myndband frá fyrirlestri um námsbrautina Líf mitt með öðrum sem haldinn var á ráðstefnu Velferðarráðuneytisins, Að skilja vilja og vilja skilja, 24. nóvember 2017. 

Undirbúningur

Hér er hægt að lesa nánar um undirbúning námsbrautarinnar og skoða gögnin sem þar voru notuð. 

Viðtalsrammar:

Útbúnir voru viðtalsrammar sem notaðir voru til að fá bakgrunnsupplýsingar og  kynnast þátttakendum sem best áður en námið hæfist. Rammarnir voru mismunandi eftir því hvort talað var við aðstandendur, tengla eða vinnustaði.

Viðtalsrammi - tengill, forstöðumaður í þjónustu 

Viðtalsrammi - aðstandendur

Viðtalsrammi - vinnustaður

 

Kynningarfundur:

Þátttakendur voru boðaðir á kynningarfund áður en námið hófst.  Á þeim fundi var þeim afhend mappa sem innihélt stundatöflu, dagatal og upplýsingasögu fyrir hvern dag. Á kynningarfundinum var búið að undirbúa þátttakendur með dagskrá þar sem var strikað yfir jafnóðum og dagskráliðurinn var búinn.   Á fundinn mætti þátttakandinn ásamt tengli og tóku kennarar brautarinnar á móti þeim. Kynningunni var síðan varpað uppá skjá þar sem hver kennari kynnti sig og sýna námsgrein. 

Upplýsingasaga fyrir kynningarfund með þátttakendum

Kynning fyrir þátttakendur - glærur

Kynning fyrir þátttakendur - punktar með glærum

 

Stundatöflur og dagatal: 

Stundatafla var gerð fyrir hvern og einn þátttakanda.  Á stundatöflunni  kom fram hvaða námsgrein var  á hvaða degi, hvar var kennt og klukkan hvað. 

Einnig var gert mánaðardagatal fyrir hvern og einn.

Stundatafla - sýnishorn

Dagatal - sýnishorn

 

Upplýsingasögur:

Búnar voru til upplýsingasögur fyrir hvert fag.  Sögurnar innihéldu upplýsingar um í hvaða námsgrein þátttakandinn var að mæta, hvert ætti að mæta, hver tæki á móti þátttakandanum og hver kennarinn væri. Þær voru unnar í samstarfi við tengil hvers um sig og sendar heim til hvers þátttakanda. Áhersla var lögð á að sagan væri lesin með þátttakanda nokkrum sinnum dagana áður en námskeið hæfist og síðan alltaf áður en hann færi á námskeiðið.

Upplýsingasaga. Íþróttir

Upplýsingasaga. Matreiðsla

Upplýsingasaga. Tónlist

Upplýsingasaga. Tölvur

 

Íþróttir

Hér er hægt að lesa nánar um námsgreinina íþróttir og skoða gögn sem þar voru notuð.

Viðfangsefni námsgreinar

Aðalmarkmiðið í íþróttum er að vekja áhuga á hreyfingu og hollum lífsháttum. Tíminn í salnum var 40 mínútur sem skiptust í upphitun, stöðvavinnu og samvinnuverkefni. Síðan voru 20 mínútur í umræður og slökun. Á seinni önninni var íþróttakennslan utan dyra í tvö skipti, þar sem þátttakendur kynntust þeim æfingum sem hægt er að gera utandyra. Einnig voru lögð fyrir heimaverkefni þar sem þátttakendur fengu vikudagatal til að skrifa inn á hvaða hreyfingu þeir höfðu stundað þá viku.
Þegar þátttakendur mættu í hús var tilbúin myndræn dagskrá með texta sem fylgdi þeim í gegnum tímann og strikað var yfir hvert atriði þegar því var lokið.

Kennsluáætlun

Sýnishorn af dagskrá

 

Uppsetning kennslurýmis

Í öllum þáttum kennslustundar var tíminn var gerður sýnilegur bæði á tímalínu og með tímavaka. Á tímalínunum var sýnt hversu oft átti að endurtaka hverja æfingu eða hversu lengi átti að vera í hverri æfingu og var það ákveðið fyrir hvern þátttakanda fyrir sig í samræmi við tímann sem var til umráðu. Táknmyndir voru teknar af tímalínunni eftir því sem leið á æfinguna.

Í stöðvavinnu var unnið á fjórum stöðvum í íþróttasalnum. Á hverri stöð vann einn þátttakandi í einu ásamt aðstoðarmanni. Mynd af þeim þátttakanda sem átti að byrja á hverri stöð var fest uppi á vegg. Tímalínur voru einnig festar uppi á vegg á hverri stöð en í miðjum salnum var stór tímavaki.  

Uppsetning kennslurýmis - stöðvavinna

Tímalínur fyrir stöðvavinnu

 

Viðfangsefni kennslustunda:

Upphitun

Hópurinn byrjaði á sameiginlegri upphitun þar sem hjólað var á þrekhjóli eða gengið á göngubretti í tíu mínútur. 

Táknmyndir fyrir tímalínur - upphitun

 

Stöðvavinna

Stöðvavinna fór fram á fjórum stöðvum í salnum. Æfingarnar reyna meðal annars á jafnvægi, styrk og þol. Kennari valdi úr eftirfarandi æfingum: Styrktaræfingar (lyfta lóðum), ganga og drippla bolta, ganga og lyfta priki, bandý (reka kúlu á milli staura), hoppa á trampolíni, kasta á körfu. Unnið var í stöðvaþjálfun í u.þ.b. 15 mínútur.

Táknmynd fyrir stöðvavinnu

Táknmyndir fyrir tímalínur - stöðvavinna

 

Samvinnuverkefni

Í samvinnuverkefni var lögð áhersla á samvinnu og liðsheild. Farið var í boccia eða bandý. Þar reynir á að hver og einn fái þá aðstoð sem hann þarf til að geta tekið þátt. Sama gildir þegar leik er lokið og gengið er frá í salnum.

Táknmyndir fyrir tímalínur - samvinna

 

Útiæfingar

Í nokkur skipti var íþróttakennslan haldin utandyra þegar vel viðraði. Útbúin var upplýsingasaga um útikennsluna sem þátttakendur fengu senda heim fyrir tímann til þess að undirbúa þá fyrir þessa breytingu á dagskránni.

Áhersla var lögð á að kynna æfingar fyrir þátttakendur sem hægt er að gera utandyra sem hluti af hefðbundnum gönguferðum.

Hugmyndir að útiæfingum

Sýnishorn af dagskrá - útiæfingar

 

 

Umræður og slökun

Í lok kennslustundar var sameiginleg stund þar sem tíminn var gerður upp með hjálp samskiptataflna í spjaldtölvu. Slíkar töflur reyndust vel til að aðstoða þátttakendur við að segja álit sitt á æfingunum og hvort þeir hafi stundað einhverjar íþróttir heima fyrir. Lögð voru fyrir heimaverkefni þar sem þátttakendur fengu vikudagatal til að skrifa inn á hvaða hreyfingu þeir höfðu stundað þá viku.

Á seinni önninni bættist við slökun og núvitund í sameiginlegri stund. Þá var kveikt á róandi tónlist og slökunin leidd áfram af kennara.

Heimavinna - skráningarblað

 

 

 

Matreiðsla

Hér er hægt að lesa nánar um námsgreinina matreiðsla og skoða gögn sem þar voru notuð.

Viðfangsefni námsgreinar

Í matreiðslu voru markmiðin að gera þátttakendum kleift að taka þátt í að elda mat, styrkja sjálfstæði í vinnubrögðum og að stuðla að samvinnu á jafningjagrundvelli. Uppbygging kennslustunda var alltaf eins. Í hverjum tíma var bakað og eldaður heitur matur sem þátttakendur borðuðu saman í lok tímans. Þátttakendur skiptust á að elda mat og baka. Allir fengu að smakka á bakstrinum en þátttakendur tóku afganginn með sér heim. 

Byrjað var á því að setjast við borð og fara yfir dagskrána. Þátttakendur skrifuðu inn á dagskrána, með aðstoð eða án, hvaða mat þeir ætluðu að elda eða hvað þeir ætluðu að baka. 

Kennsluáætlun

Sýnishorn af dagskrá

 

Uppsetning kennslurýmis

Í upphafi þróunarverkefnisins var notuð myndræn dagskrá með lausum myndum með texta á plastaðri töflu í lit uppi á vegg. Þátttakendur tóku miða af töflunni með sér á vinnusvæðið og pöruðu þar saman við eins mynd. Þar voru sundurliðaðir verkþættir og aftast var töflumiði (plastað spjald í sama lit og taflan) til að segja viðkomandi að fara aftur að töflu til að sjá næsta dagskrárlið og fara á nýja vinnustöð. Töflumiðinn var settir í plastvasa við töfluna að lokinni notkun. Á seinni önninni var skipt yfir í myndræna dagskrá með texta á einu blaði eins og gert var í hinum námsgreinunum. Þátttakendur strikuðu yfir með penna þegar hverjum dagskrálið lauk.

Mikilvægt er að hafa uppsetningu vinnufyrirkomulagsins í byrjun námskeiðs eins og sagt er frá hér að framan til þess að þátttakendur átti sig vel á vinnuumhverfinu – hvar og hvernig á að vinna. Fyrir þá sem það hentar getur komið vel út að að færa síðar á námskeiðinu dagskrá yfir á eitt blað með myndum og texta og strika yfir það sem er búið.

Uppsetning kennslurýmis

Táknmyndir fyrir töflu og vinnusvæði

 

Viðfangsefni kennslustunda:

Eldað/bakað á vinnusvæði

Þegar búið var að fara yfir dagskrá fór hvor nemandi á sitt vinnusvæði með kennara/félagsliða/aðstoðarmanni. Annar fór á svæðið þar sem bakað var og hinn á svæðið þar sem eldaður var matur. Á dagskráblaðinu kemur skýrt fram á hvaða vinnusvæði hvor dagskráliður er unninn.

Allar uppskriftir eru myndrænar. Þær eru tvenns konar. Annars vegar eru þær á tveimur blaðsíðum og þá er strikað yfir hvern þátt þegar hann er búinn. Hins vegar eru uppskriftir í flettimöppu og hver einstakur þáttur á sér blaðsíðu. Þá fletta þátttakendur möppunni jafnóðum og hverjum þætti er lokið.

Í þróunarverkefninu voru allar uppskriftir sem notaðar voru settar inn á Facebooksíðu námsbrautarinnar þannig að auðvelt var fyrir þátttakendur að prenta þær út eða opna í spjaldtölvu til að nota heima. Mælt er með að þessi möguleiki verði nýttur þar sem það stuðlar að því að námið nýtist þátttakendum heima fyrir.

Sýnishorn af uppskrift - til að strika yfir

Sýnishorn af uppskrift - fyrir flettimöppu

Yfirlit yfir uppskriftir

 

Ganga frá í uppþvottavél

Þátttakendur gengu báðir í það að ganga frá úr uppþvottavélinni. Sá þeirra sem var fyrr búinn að elda eða í hléi þegar bakstur/matur var í ofninum eða að sjóða, gekk í það. Stundum gerðu þeir það saman og var þá unnið að því að efla samvinnu á milli þeirra. Alltaf var farið yfir hver hafði gert hvað þegar strikað var yfir dagskrána.

Mikilvægt er að hafa í huga að þátttakendur þurfi markvissa aðstoð við að vinna saman, til dæmis að því að ganga frá í uppþvottavél. Gott getur verið að skrifa á blað hver gerir hvað og í hvaða röð til þess að gera samvinnuna sjónrænt sýnilega.

 

Leggja á borð 

Sama fyrirkomulag var varðandi næsta dagskrálið, að leggja á borð og sækja vatn. Þátttakendur gengu í það saman eða annar þeirra sá um það og fór það eftir því hvernig stóð á í matargerðinni hjá þeim.

Aftur þarf að hafa í huga að hugsanlega samvinna þarf helst að vera sjónrænt sýnileg til þess að hún gangi upp.

 

Borða saman

Þegar maturinn var tilbúinn og búið að leggja á borð borðuðu allir saman, þátttakendur, aðstoðarmenn þeirra, kennari og félagsliði.

Vert er að hafa í huga að þátttakendur geti átt erfitt með að borða með öðrum og til dæmis spjalla eða svara spurningum á meðan borðað er. Nauðsynlegt er að virða þetta og annað hvort takmarka samtöl á meðan borðað er eða reyna að hafa samtölin skipulögð þannig að allir eigi möguleika á að taka þátt.

 

Ganga frá eftir matinn

Þegar allir voru búnir að borða hjálpuðust þátttakendur að við að ganga frá eftir matinn, setja í uppþvottavélina og þurrka borð. Enn og aftur þarf að hafa í huga að hugsanlega þarf samvinna helst að vera sjónrænt sýnileg til þess að hún gangi upp.

Tónlist

Hér er hægt að lesa nánar um námsgreinina tónlist og skoða gögn sem þar voru notuð.

Viðfangsefni námsgreinar

Kennslan í tónlist samanstóð af umræðum um tónlist, fræðslu um tónlistarmenn, tónlistarsköpun í spjaldtölvu, samspili á hljóðfæri og samsöng. Útbúin var dagskrá fyrir hverja kennslustund sem var prentuð út og einnig birt á Smart töflu í upphafi tímans. Kennari skrifaði á Smart töfluna inn á dagskrána sem þátttakendur voru með fyrir framan sig. Þátttakendur skrifuðu á blöð fyrir framan sig og fengu aðstoð eftir þörfum (skrifað fyrir þátttakanda/þátttakandi skrifaði eftir fyrirmynd/þátttakandi skrifaði sjálfur en þurfti stundum að fá ábendingu um hvað átti að skrifa). Ef þátttakandi skrifaði sjálfur en mjög hægt var rætt við hann um að aðstoðarmaður myndi skrifa fyrir hann inn á dagskrána en hann myndi skrifa sjálfur þegar kæmi að fræðslunni. Mikilvægt er að hópurinn geti farið yfir dagskrána saman.

Kennsluáætlun

Sýnishorn af dagskrá - byrjun námstímabils

Sýnishorn af dagskrá - seinni hluti námstímabils

 

Uppsetning kennslurýmis

Í þróunarverkefninu fór fyrri hluti tónlistartímans fram í einni kennslustofu og seinni hluti í annarri. Það er ekki endilega nauðsynlegt að skipta  þessu upp en reyndist þó mjög vel fyrir suma þátttakendur að skipta um umhverfi þegar fræðslan var búin og farið var að vinna með hljóðfæri og samspil.

Uppsetning kennslurýmis

Spjöld fyrir vegg

Táknmyndir fyrir tímalínur

 

Viðfangsefni kennslustunda:

Umræður um tónlist

Hver kennslustund hófst með stuttum umræðum um tónlist, á dagskránni nefnt "Tala saman". Kennari var búinn að undirbúa töflu í spjaldtölvu með myndum, orðum og hljóðupptöku um umræðuefni dagsins (notað var smáforritið SoundingBoard). Umræðuefni tengdust annað hvort fræðslu dagsins eða tónlist sem var ofarlega í lífi þátttakenda eða samfélagsumræðunni hverju sinni. Dæmi um umræðuefni: Tónlist í sumarfríinu (fór á tónleika, keypti nýjan geisladisk.....), Hvenær finnst mér gott að hlusta á tónlist (þegar ég vil slaka á, mér líður illa...), Umræður um Airwaves-hátíðina. Kennari kynnti töfluna fyrir hópnum og fór síðan hringinn með spjaldtölvuna svo að hver og einn fengi tækifæri til að tjá sig með því að benda á töfluna. Mikilvægt er að kennarar og fylgdarmenn tjái sig líka með töflunni svo að allir séu jafnir í umræðunum.

Sýnishorn af töflu í Soundingboard fyrir umræður.

 

Fræðsla

Fastur liður í tónlistarkennslunni var fræðsla um tónlistarmenn. Útbúin var glærusýning í Powerpoint fyrir hverja kennslustund og glærurnar prentaðar út fyrir þátttakendur með plássi til að skrifa við hverja glæru.

Fræðslan varð að mestu leyti til út frá tónlistaráhuga þátttakenda. Ekki er víst að hægt sé að nota sama fræðsluefni óbreytt með hvaða þátttakendum sem eru. Fræðslan ber einnig þess merki að hafa orðið til árið 2015. Það þarf því hugsanlega að uppfæra nokkur atriði eftir því sem tíminn líður. En efnið hér má nota til þess að fá hugmyndir að innihaldi og uppsetningu.

Fræðsluefnið var notað í hefðbundnu fyrirlestrarformi. Glærunum var varpað upp á Smart töflu og lykilorð skrifuð inn á hverja glæru. Þátttakendur fengu aðstoð eftir þörfum við að skrifa lykilorðin inn á sínar glærur (svipað og þegar farið var yfir dagskráni í upphafi tímans). Mikilvægt er að kennari sé búinn að undirbúa vel hvað hann ætlar að segja við hverja glæru. Það er gert með því að skrifa minnispunkta fyrir hverja glæru og merkja lykilorðin í minnispunktunum. Þannig getur kennarinn haldið sig að mestu leyti við stuttar, hnitmiðaðar setningar og passað sig að tala ekki of mikið. Mikilvægt er að fara yfir eina glæru í einu á rólegu tempói. Nauðsynlegt er að lesa í úthald og þol þátttakenda og ákveða út frá því hvort allir minnispunktar eru notaðir eða einungis hluti þeirra.

Þegar leið á námið var bætt vali inn í lok hverrar fræðslu. Oftast voru tvær glærur merktar "Velja" eða táknmynd fyrir að velja. Þátttakendur skiptust á að koma upp og velja annað lagið á glærunni með því að benda á Smarttöfluna.

Sýnishorn af glærusýningu

Fræðsla - minnispunktar með glærum

 

Tónlistarsköpun í spjaldtölvu

Í tónlistarkennslunni var einnig unnið með tónlistarsköpun í spjaldtölvu. Kennari var búinn að velja eitt tónlistar-smáforrit fyrir spjaldtölvu fyrir kennslustundina og e.t.v. tengja spjaldtölvuna við hátalara. Ef forritið hafði ekki verið notað áður var byrjað á stuttri kynningu. Síðan gekk kennari á milli með spjaldtölvuna og hver og einn spilaði með því að koma við skjáinn. Mikilvægt er að kennarar og aðstoðarmenn þátttakenda taki líka þátt í að spila en þar með eykst upplifunin á því að hópurinn sé að skapa tónlist saman. Einnig er mikilvægt að tala sem minnst á meðan spilað er til þess að tónlistin fái að njóta sín og hver og einn fái möguleika á að upplifa tónlistarsköpunina. Dæmi um smáforrit sem reyndust vel í samspilinu: Bloom, Real guitar, Launchpad og Garageband.

 

Samspil á hljóðfæri

Í hverri kennslustund í tónlist var unnið með samspil á hljóðfæri. Spilað var eitt lag sem kennari var búinn að vela fyrirfram. Í upphafi námsins voru hljóðfærin kynnt eitt af öðru. Kennari sagði stutt frá hljóðfærinu og gekk síðan á milli þannig að hver og einn fengi tækifæri til að spila með laginu. Kennari söng laglínuna með. Þegar leið á námið byrjaði hver þátttakandi á að velja sér hljóðfæri af töflu í spjaldtölvu. Útbúin voru hljómablöð með skýrum texta og litum fyrir hvern hljóm. Einnig voru hljóðfærin merkt með litum hvern hljóm þegar það átti við. Þátttendur settust með sínum aðstoðarmanni við hljóðfærið og fengu aðstoð við að spila eftir þörfum. Kennari spilaði e.t.v. með á gítar/píanó/bassa til þess að fylla upp í undir spilið.  Mjög misjafnt getur verið hvaða aðstoð þátttakendur þurfa (aðstoðarmaður heldur á hljóðfærinu og þátttakandi slær á strengina/aðstoðamaður sér um að skipta um hljóma en þátttakandi spilar að öðru leyti sjálfur/þátttakandi spilar sjálfur en það þarf að benda honum á næsta hljóm og hvenær á að skipta). Ef aðstoðarmaður hefur enga reynslu af hljóðfæraleik þarf að kynna stuttlega hvernig á að aðstoða og lesa úr hljómablaðinu.  Dæmi um lög sem reyndust vel fyrir samspilið: Love Me Do (tveir hljómar), Achy Breaky Heart (tveir hljómar), Vertu þú sjálfur (þrír hljómar) og Ríðum sem fjandinn (þrír hljómar). 

Sýnishorn af töflu í SoundingBoard fyrir hljóðfæraval. 

Sýnishorn af hljómablaði fyrir samspil    

 

Samsöngur

Hver kennslustund í tónlist byrjaði og endaði á því að hópurinn söng saman, í byrjun tímans með gítarundirspili og í lok tímans með píanóundirspili. Þetta varð ákveðinn rammi fyrir kennslustundina. Kennari var búinn að velja lög til að syngja í byrjun tímans og fjöldi þeirra var sýndur uppi á vegg. Eftir hvert lag var flipa á tímalínunni lokað. Prentuð voru út textablöð fyrir þátttakendur og aðstoðarmenn og kennarinn tilbúinn með hljóma fyrir undirspilið. Gott er að nota vefsíðuna www.guitarparty.com til að finna og prenta út hljóma fyrir undirspil.

Þegar leið á námið skiptust þátttakendur á að velja lag af töflu í spjaldtölvu í lok tímans. Fjöldi laga var sýndur á tímalínu uppá vegg. Kennari var þá búinn að koma sér upp möppu með textablöðum og hljómum fyrir undirspil sem hann gat fljótlega flett upp í. Tengja má hljóðnema og bjóða þátttakendum að syngja í hann eitt lag til skiptis. Gott er að velja lög sem tengjast annað hvort tónlistaráhuga þátttakenda, fræðslunni eða lög sem eru ofarlega í samfélagsumræðunni hverju sinni. Mjög mikilvægt er að reyna að komast að því hvaða lög þátttakendur hafa áhuga á að syngja og nota þau í kennslunni, sérstaklega í byrjun. Það má gera annars vegar með því að spyrja út í tónlistaráhuga, uppáhaldslög og tónlistarmenn þegar bakgrunnsupplýsingum er safnað í upphafi námsins. Hins vegar má fylgjast vel með viðbrögðum þátttakenda í kennslunni þegar ný lög eru kynnt eða spiluð til dæmis í fræðslunni. Oft er líka hægt að fá góðar upplýsingar frá aðstoðarmönnum sem fylgja þátttakendum í kennslunni hverju sinni. Síðan má prófa sig áfram með önnur lög til þess að víkka út efnisskrána.

Sýnishorn af töflu í SoundingBoard fyrir lagaval.

Sýnishorn af söngtexta

Tölvur

Hér er hægt að lesa nánar um námsgreinina tölvur og skoða gögn sem þar voru notuð.

Viðfangsefni námsgreinar

Í tölvutímum var unnið með markmið sem snúa að sjálfsmynd og valdeflingu þátttakenda í gegnum fjölbreytt verkefni í tölvu og spjaldtölvu. Þátttakendur unnu heimaverkefni í spjaldtölvu með aðstoðarfólki sínu og kynntu þessar frásagnir úr eigin lífi uppi við töflu í upphafi hvers tíma. Síðan voru unnin einstaklingsverkefni þar sem áhersla var lögð á samþættingu námsgreina og unnið með myndir og fræðslu úr hinum námsgreinunum á brautinni. 

Útbúin var dagskrá fyrir hverja kennslustund sem var prentuð út og einnig birt á Smart töflu í upphafi tímans. Dagskráin var kynnt fyrir þátttakendum og þeir sjálfir skrifuðu upp dagskrárliði með eða án forskriftar.

Kennsluáætlun

Sýnishorn af dagskrá

 

Uppsetning kennslurýmis

Öll vinnupláss voru tilbúin í upphafi kennslustundar: borð fyrir umræður og vinnusvæði fyrir einstaklingsverkefni þar sem táknmyndum fyrir verkefnið, mynd af þeim þátttakanda sem átti að vinna verkefnið og verkefninu sjálfu var raðað á borð. 

Uppsetning kennslurýmis

Táknmyndir

 

Viðfangsefni kennslustunda:

Umræður

Hver kennslustund hófst á almennum umræðum þar sem gagnvirkar valtöflur í smáforritinu Soundingboard voru notaðar sem hjálpartæki. Umræðurnar voru af fjölbreyttum toga, svo sem hvað þáttakendur höfðu gert sér til skemmtunar um liðna helgi, hvaða tónlist þeir hlusti á og ýmislegt fleira sem tengst getur öðrum námsgreinum námsbrautarinnar.

Kennari var fyrirfram búinn að ákveða umræðuefni og útbúa valtöflu í Soundingboard. Mikilvægt er að allir - þátttakendur, aðstoðarfólk og kennarar - taki þátt í umræðunum og noti valtöfluna til þess.

Leiðbeiningar fyrir Soundingboard

 

Frásagnir uppi við töflu

Þátttakendur kynntu og sögðu sögur uppi við Smarttöflu með aðstoð. Sögurnar voru gerðar í smáforritinu Story Creator í spjaldtölvu, ýmist sem heimaverkefni eða sem einstaklingsverkefni í kennslustund. Sögunni var varpað upp á Smarttöflu og hún kynnt í máli og myndum.

 

Verkefnavinna - einstaklingsverkefni

Þátttakendur leystu verkefni með aðstoð eftir þörfum. Verkefnin voru aðallega unnin inni á samfélagsmiðlinum Facebook (skrifa texta við myndir sem höfðu verið settar inn í Facebook-hóp námsbrautarinnar), í tónlistarforritinu Youtube (leita að tónlistarmyndbandi og horfa) og smáforritinu Story Creator í spjaldtölvu (búa til sögu með myndum og texta). Einnig voru unnin verkefni um leiki í iPad og myndavél spjaldtölvunnar. Jafnframt voru flóknari verkefni eins og að læra að senda tölvupóst gerð fyrir þá sem réðu við slík verkefni. Verkefnin voru sett upp á misjafnan hátt með eða án forskriftar. Meginmarkmiðið með einstaklingsverkefnum er að vinna nánar efni úr öðrum námsgreinum, það er að segja vinna með myndir sem teknar eru í öðrum námsgreinum og fræðslu.

Þegar líða tók á önnina bættist við val við gerð einstaklingsverkefnis. Valið var sett upp í valtöflu í smáforritinu Soundingboard og þátttakandi valdi með þeim hætti hvaða verkefni hann vildi vinna. Þá er mikilvægt að vera með verkefnin sem um er að ræða í vali fyrirfram tilbúin.

Sýnishorn af verkefni - Facebook

Sýnishorn af verkefni - Youtube

Sýnishorn af verkefni - Story Creator

Sýnishorn af verkefni - Taka myndir

Sýnishorn af verkefni - Leikir í iPad

Sýnishorn af verkefni - Senda tölvupóst

Sameiginlegur tími

Hér er hægt að lesa nánar um sameiginlega tíma sem haldnir voru hálfsmánaðarlega á námsbrautinni og skoða gögnin sem þar voru notuð. 

Ákveðið var að vera með svokallaðan sameiginlegan tíma fyrir alla þátttakendur, kennara og aðstoðarfólk hálfsmánaðarlega á seinni önninni. Það er mat kennara hverju sinni hvenær þátttakendur eru tilbúnir að taka þátt í slíkum tíma en ráðlegt er að fara hægt af stað og leyfa þátttakendum fyrst að kynnast vinnulaginu í náminu almennt þar sem það nýtist þeim síðan við að takast á við það aukna álag sem sameiginlegi tíminn getur verið.

Sameiginlegi tíminn var hugsaður sem síðustu 25-30 mínúturnar af kennslustundinni í lok vikunnar. Þá styttist tími annarra námsgreina þennan dag og allir hittust í ákveðinni kennslustofu. Til undirbúnings var búið að setja sameiginlegu tímana inn á dagatalið sem þátttakendur fengu sent heim í upphafi annar. Einnig var dagskrárliðum sameiginlega tímans bætt inn á dagskrána sem þátttakendur fóru yfir í upphafi tímans þennan dag. Þannig hélst sama vinnulagið, að þátttakendur strikuðu yfir hvert atriði í sameiginlega tímanum þegar það var búið.

Viðfangsefni sameiginlega tímans voru þrenns konar: Kynning þátttakenda á efni sem búið var til í tölvutímum, fræðsla um skynjun einhverfs fólks og hressing sem útbúin var af þeim þátttakendum sem voru í matreiðslu þennan dag.

Sýnishorn af dagskrá

 

Uppsetning kennslurýmis:

Þátttakendur sátu við borð fyrir framan skjá þar sem kynningarnar og fræðslan fór fram. Gert var ráð fyrir sæti fyrir aðstoðarmann og/eða kennara við hliðina á hverjum þátttakanda.

Uppsetning kennslurýmis

 

Viðfangsefni sameiginlega tímans:

Kynning þátttakanda:

Þátttakendur skiptust á að kynna eina sögu sem búin hafði verið til í smáforritinu Story Creator annað hvort í tölvutíma eða heima. Í hverjum tíma var kynnt ein saga. Kynningin fór fram eins og í tölvutímanum en nú reyndi aðeins meira á því áhorfendur voru fleiri. Gott getur verið að leyfa þátttakanda að velja hvort hann vilji koma upp að töflu og kynna eða hvort hann vilji kynna söguna sína úr sætinu.

 

Fræðsla um skynjun - hvernig skynjun einhverfs fólks getur verið frábrugðin skynjun óeinhverfs fólks:
Kennari var búinn að undirbúa glærukynningu og prenta út glærur fyrir þátttakendur. Fræðslan fór fram eins og í tónlistartímum: Kennari studdist við minnispunkta um það sem hann ætlaði að segja við hverja glæru, hann skrifaði eitt orð yfir efni hverrar glæru beint á smarttöflu og þátttakendur skrifuðu sama orð inn á útprentuðu glærurnar með eða án aðstoðar. Þetta sést í 5. glærupakka hér fyrir neðan. Þar er líka grunnfletinum
breytt, gerður dekkri til að minnka „kontrast“ og þar með mögulega óþægilegt áreiti. Minnispunktar fara eftir þátttakendum hverju sinni.

Fræðsluefnið byggir á rannsóknum á skynúrvinnsluvanda fólks á einhverfurófi og frásögnum þess sjálfs af óvenjulegri skynjun sinni. Lögð var áhersla á að útskýra fyrir þátttakendum hvernig skynjun þeirra og skynjun fólks utan einhverfurófsins getur verið ólík og hvernig ýmis viðbrögð þeirra við áreitum í umhverfinu geta verið óskiljanleg óeinhverfu fólki sem skynjar áreitin á annan hátt. Lögð var áhersla á mikilvægi þess að óeinhverft fólk öðlist þennan skilning á viðbrögðum þeirra, ekki síst sársauka og vanlíðan sem oft kemur fram við sterkum áreitum. Tekin voru fyrir skynsviðin sjón, heyrn og snerting í þessari fræðslu en einnig þarf að taka fyrir lyktarskynjun og bragð sem ekki vannst tími til við þróun þessarar námsbrautar.

Þar sem þátttakendur voru fjórir saman var mikilvægt að reyna að ná til hvers og eins með fræðslunni, til dæmis með því að nefna nöfnin þeirra og tala beint við hvern og einn í fræðslunni og einnig með því að aðrir kennarar eða aðstoðarmenn sitji hjá þátttakendum og hjálpi þeim að tengja við eigin reynslu.

Fræðsluefni: Kynning

Fræðsluefni: Hljóð

Fræðsluefni: Sjón

Fræðsluefni: Snerting

Fræðsluefni: Samantekt

 

Hressing:

Í lok sameiginlega tímans var boðið upp á hressingu úr matreiðslutímanum. Þátttakendur sem voru í matreiðslu þann dag sem sameiginlegi tíminn var útbjuggu hressingu. Þetta þarf helst að vera eitthvað sem fljótlegt er að framreiða, svo sem niðurskornir ávextir og drykkur.

Hafa ber í huga að þátttakendur geta átt erfitt með að njóta hressingarinnar og spjalla við aðra um leið. Passa þarf að kennarar og aðstoðarfólk fari ekki bara að tala saman sín á milli, jafnvel yfir þátttakendur, en reyna í staðinn að beina samtalinu að þátttakendum eftir því sem þeir ráða við. Þannig verður þessi stund æfing í því að eiga ánægjulega samveru með öðrum.

Lokaverkefni

Hér er hægt að lesa nánar um lokaverkefni sem þátttakendur unnu í lok námsbrautarinnar og skoða gögn sem þar voru notuð.

Lokaverkefnið var unnið á seinni hluta seinni annar. Í þróunarverkefninu voru áætlaðar fjórar vikur í að velja, vinna og kynna lokaverkefnið. Fljótlega kom þó í ljós að það var ekki nóg.

Lokaverkefnið snérist um að þátttakendur kynntu afmarkað efni úr náminu, efni sem þeir völdu sjálfir og sem þá langaði að vinna áfram með að námi loknu, fyrir starfsfólk og aðstandendur annað hvort á heimili eða  vinnustað þeirra. Markmiðið með lokaverkefninu var þannig að stuðla að yfirfærslu námsins á daglegt líf auk þess að stuðla að valdeflingu þátttakenda með því að gefa þeim tækifæri til að fræða starfsfólk sitt og koma á framfæri óskum um ný verkefni eða nýja afþreyingu.

Fyrirfram var ákveðið hvaða þátttakendur unnu lokaverkefni tengt heimilinu og hvaða þátttakendur unnu lokaverkefni tengt vinnustaðnum. Byrjað var á að kynna fyrir þátttakendum hvernig vinnan við lokaverkefnið myndi fara fram. Kynningin var sett upp sem fræðsla í glærusýningu og fór fram eins og önnur fræðsla á námsbrautinni (sjá undir Tónlist eða Sameiginlegur tími). Reynslan af þróunarverkefninu sýnir að nauðsynlegt er að byrja snemma að kynna lokaverkefnið fyrir þátttakendum og útskýra vel tilgang verkefnisins.

Fræðsla um lokaverkefni - Heima

Fræðsla um lokaverkefni - Vinnustaður

Fræðsla - minnispunktar með glærum

 

Þátttakendur völdu síðan hvaða námsgrein þeir vildu vinna með í lokaverkefninu. Til þess voru notuð gögn með hugmyndum fyrir hverja námsgrein sem þátttakendur tóku með sér heim og skoðuðu með tengli sínum og síðan völdu þeir í samvinnu við tengil og kennara. Þar næst völdu þátttakendur viðfangsefni með því að forgangsraða hugmyndum sínum að verkefnum á blað. Þetta var gert í tíma með kennara en í samvinnu við tengil þátttakanda.

Hugmyndir fyrir lokaverkefni - Heima

Hugmyndir fyrir lokaverkefni - Vinnustaður

Sýnishorn af blaði til forgangsröðunar


Vinnan við lokaverkefnin átti sér stað í hluta af kennslustundum annarra námsgreina, svo sem tónlist og tölvum. Kennarinn bjó til áætlun fyrir hvern þátttakanda sem unnið var eftir. Sumum þátttakendum dugði að vinna eftir skrifaðri áætlun á meðan aðrir þurftu á skýrari uppsetningu að halda og var þá útbúin nánari útfærsla með myndum af hverju skrefi fyrir sig í áætluninni. Í tölvutímum unnu allir þátttakendur sögu í Story Creator um lokaverkefnið sem ætluð var til að kynna verkefnið í lokin.

Sýnishorn af áætlun

 

Að lokum kynntu þátttakendur lokaverkefnin sín ýmist á heimilinu eða vinnustaðnum. Þátttakendur fengu senda heim upplýsingasögu um kynninguna með góðum fyrirvara. Kennari hafði til gögn fyrir kynninguna: dagskrá, afrakstur verkefnavinnunnar, tímalínur og önnur praktísk gögn. Kennari fór með á kynninguna og stýrði dagskránni með þátttakanda. Dagskráin var byggð upp á svipaðan hátt og venjuleg kennslustund í viðkomandi námsgrein en saga þátttakanda um tilurð verkefnisins og kynning á afrakstri þess gegndu lykilhlutverki í dagskránni. Að kynningu lokinni var boðið upp á hressingu sem þátttakendur höfðu útbúið í matreiðslu. Einnig voru gögn verkefnisins afhend tengli á heimilinu eða vinnustaðnum. Frágangur á gögnum þarf að vera með þeim hætti að hægt sé að nota þau án frekari aðkomu kennara. Gott er að láta leiðbeiningar um notkun þeirra fylgja.

Sýnishorn af upplýsingasögu um kynningu á lokaverkefni

Sýnishorn af dagskrá fyrir kynningu

Námsmat

Hér er hægt að lesa um hvernig námsmat var framkvæmt á námsbrautinni og skoða gögn sem þar voru notuð.

Námsmatið samanstóð af tveimur þáttum: Mat þátttakenda á viðfangsefni námsgreina og mat tengla á námsmarkmiðum, nýtingu námsins heima fyrir og fyrirkomulagi námsbrautarinnar.

 

Námsmat þátttakenda:

Námsmat þátttakenda á viðfangsefni námsgreina var framkvæmt í lok hverrar annar. Mynd sem táknar námsmatið var sett inn á dagskrána fyrir tímann. Kennari settist með hverjum þátttakanda fyrir sig til að framkvæma námsmatið. Notuð var aðferðin Talking mats sem upprunalega var þróuð af tveimur rannsakendum í Skotlandi, Joan Murphy og Lois Cameron. Þetta er samtals-/viðtalsaðferð sem hentar vel fólki sem á erfitt með að tjá sig og sem eykur möguleika þess á að taka þátt í ákvörðunum um eigið líf. Lesa má meira um aðferðina hér: https://www.talkingmats.com/. 

Talking mats aðferðin hentar e.t.v. ekki öllum þátttakendum. Kennari þarf að vera vakandi fyrir því hvort þátttakandi raði myndunum eftir eigin mati á náminu eða hvort hann raði þeim e.t.v. eftir litum eða einhverju öðru. Ef svo er getur verið gott að nota valtöflur í spjaldtölvu til þess að fá þátttakanda til að meta námið. Hafa þarf í huga að þátttakendur þurfa tíma til að venjast því að vinna eftir þessum aðferðum. Það getur því borgað sig að byrja frekar fyrr en síðar á námsmatinu og byrja á fáum þáttum og bæta síðan við. Sumir þátttakendur geta gert ítarlegra námsmat þar sem skrifuð eru svör við spurningum um námið og/eða merkt við myndræna svarmöguleika á blaði.

Námsmat þátttakenda - kennsluleiðbeiningar

 

Námsmat tengla:

Námsmat tengla var framkvæmt með reglulegum fundum á tímabilinu og í lok hverrar annar með rafrænum spurningakönnunum. Í  spurningakönnununum var spurt um mat tengla á námsmarkmiðum, nýtingu námsins heima fyrir og fyrirkomulag námsbrautarinnar.

Námsmat tengla - spurningar fyrir rafræna könnun

Síðasti tími fyrri annar og útskrift

Hér er hægt að lesa um hvernig síðasti tími fyrri annar og útskrift í lok námsins var haldin hátíðleg og skoða gögn sem þar voru notuð.

Síðasti tími fyrri annar:

Síðasti tími fyrri annar var haldinn hátíðlegur með því að allur hópurinn hittist í lok kennslustundar og fylgt var ákveðinni dagskrá sem var um margt lík dagskránni fyrir sameiginlegu tímana. Hver þátttakandi kynnti eina sögu úr einni námsgrein og síðan voru afhent viðurkenningarskjöl. Í lokin var boðið upp á veitingar sem búnar höfðu verið til í matreiðslu síðustu vikurnar á undan.

Þátttakendur fengu senda heim upplýsingasögu um síðasta tímann með góðum fyrirvara. Farið var yfir dagskrá stundarinnar í upphafi tímans.
Eins og í sameiginlegu tímunum ber að hafa í huga að þátttakendur geta átt erfitt með að njóta veitinga og spjalla við aðra um leið. Passa þarf að kennarar og aðstoðarfólk fari ekki bara að tala saman sín á milli, jafnvel yfir þátttakendur, en reyna í staðinn að beina samtalinu að þátttakendum eftir því sem þeir ráða við. Þannig verður þessi stund hátíðleg og ánægjuleg fyrir alla.

Sýnishorn af upplýsingasögu

Dagskrá

Viðurkenningarskjal

 

Útskrift:

Í síðasta tíma seinni annar var haldin formleg útskrift. Dagskrá útskriftarinnar var svipuð dagskrá síðasta tíma fyrri annar nema nú voru tenglar og aðstandendur þátttakenda boðnir með sem gestir og forstöðumaður Fjölmenntar hélt ræðu og afhenti viðurkenningarskjöl. Þar að auki var horft á myndband með myndum úr öllu náminu og tekin hópmynd. Allt kom þetta fram í upplýsingasögunni sem send var heim með góðum fyrirvara og í dagskránni sem farið var yfir í upphafi tímans.

Hafa ber í huga að þátttakendur geta verið viðkvæmir fyrir áreitum, til dæmis þegar klappað er eða að vera innan um margt fólk í þröngu rými. Er ágætt að byrja tímann á því að tala um það og finna leiðir til þess að taka tillit til allra þátttakenda, svo sem að sleppa því að klappa en veifa höndunum í staðinn og að leyfa þátttakendum að vera staðsettir þar sem auðvelt er að komast út ef viðkomandi þarf hlé frá áreitunum.

Sýnishorn af upplýsingasögu

Dagskrá

Viðurkenningarskjal