Rannsóknir

Möguleikar fatlaðs fólks til náms að loknum framhaldsskóla

Meistaraprófsverkefni Maríu Hildiþórsdóttur, lagt fram til fullnaðar M.Ed.-gráðu í uppeldis- og menntunarfræði við Kennaraháskóla Íslands.

Meistaraprófsverkefni Maríu Hildiþórsdóttur, lagt fram til fullnaðar M.Ed.-gráðu í uppeldis- og menntunarfræði við Kennaraháskóla Íslands.

Ritgerð þessi fjallar um námsóskir fatlaðra ungmenna og þann raunveruleika sem þau standa frammi fyrir að loknum framhaldsskóla. Markmið rannsóknarinnar var að skoða óskir og væntingar nemenda og foreldra þeirra og fjalla um þá möguleika sem bjóðast til náms við þau tímamót. Símenntunarmiðstöðin Fjölmennt var skoðuð og gerð verður grein fyrir þeim sóknarfærum sem stofnunin stendur frammi fyrir.

Nám á starfsbraut framhaldsskóla

Meistararitgerð Helgu Gísladóttur.

Meistararitgerð Helgu Gísladóttur.

Ritgerð þessi fjallar um menntun nemenda á starfsbrautum tveggja framhaldsskóla. Ritgerðin byggir á niðurstöðum rannsóknar sem gerð var á árunum 2004-2005. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða með hvaða hætti unnið var að tilfærslu nemenda frá skóla til fullorðinsára. Kannað var með hverskonar menntun nemendur útskrifast, skipulag náms þeirra, tilgangur þess og staða nemenda að námi loknu. Þátttakendur í rannsóikninni voru níu talsins: fjórir fyrrverandi nemendur, þrír foreldrar og tveir kennarar, einn við hvora starfsbraut. Jafnframt voru prentuð gögn, svo sem námskrá fyrir starfsbrautir og skrifaðar heimildir frá skólunum, nýtt sem rannsóknargögn.

Óvenjuleg skynjun - grunnþáttur einhverfu

Ritrýnd grein eftir Jarþrúði Þórhallsdóttur og Hönnu Björgu Sigurjónsdóttur.

Ritrýnd grein eftir Jarþrúði Þórhallsdóttur og Hönnu Björgu Sigurjónsdóttur.

Markmiðið með þessari grein var að afla þekkingar og skilnings á því hvernig það er að vera á einhverfurófi út frá sjónarhóli þeirra sem hafa þá reynslu. Megináhersla var lögð á að öðlast þekkingu á skynjun og skynúrvinnslu þátttakenda og skilning á áhrifum hennar á daglegt líf - viðbrögð/hegðun og félagsleg samskipti. Auk þess var áhersla lögð á þýðingu greiningar inn á einhverfuróf fyrir þátttakendur svo og reynslu þeirra af skólagöngu. Hér verður skýrt frá þeim hluta niðurstaðna sem lúta að skynjun og skynúrvinnslu og verður sjónúrvinnsla sérstaklega tekin fyrir.

Þróun námskrár í símenntun fólks með alvarlega boðskiptahömlun í ljósi nýrra hugmynda í fötlunarfræðum, námskrárfræðum og fullorðinsfræðslu

Meistararitgerð Önnu Soffíu Óskarsdóttur í sérkennslufræðum við Menntasvið Háskóla Íslands.

Meistararitgerð Önnu Soffíu Óskarsdóttur í sérkennslufræðum við Menntasvið Háskóla Íslands.

Ritgerð þessi fjallar um umbætur í námskrárgerð fyrir fullorðna nemendur með alvarlega boðskipta- eða tjáskiptahömlun. Ritgerðin byggir á meginhugmyndum framsækinna námskrárfræða, fötlunarfræða og fræða um fullorðinsfræðslu. Tilgangur verksins er að efla þróun námskrár í fullorðinsfræðslu fyrir fólk með alvarlega tjáskiptahömlun þannig að hún upplýsi betur um tilgang með náminu, um leið og hún bæði endurspegli helstu áherslur í jafnréttisbaráttu fatlaðra og taki mið af því að nemendur eru fullorðið fólk.

Niðurstöður ritgerðarinnar eru þær helstar að markviss viðleitni til þess að varpa ljósi á tengsl umhverfis og fötlunar skipti máli fyrir valdeflingu nemenda. Kenningar um önnur þekkingarsvið en hin rökrænu; fjölgreind, vitund um tilfinningar, skoðanir og hugsanir gefa færi á að gera tjáskipti, sterkari sjálfsmynd og valdeflingu að markvissum þáttum í námi fullorðins fólks með alvarlega tjáskiptahömlun.

Milliliður, stuðningsaðili eða hlutlaus fylgdarmaður

Meistararitgerð Helle Kristensen í sérkennslufræði og skóla margbreytileikans við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Meistararitgerð Helle Kristensen í sérkennslufræði og skóla margbreytileikans við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Þessi ritgerð fjallar um hlutverk aðstoðarfólks í námi fólks með þroskahömlun sem þarf mikinn stuðning. Tilgangur rannsóknarverkefnisins var að fá innsýn í það hvernig aðstoðarfólk sér fyrir sér þetta hlutverk. Þátttakendur í rannsókninni voru sex aðstoðarmenn sem höfðu reynslu af því að fylgja fólki á námskeið hjá Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð. Fólkið sem naut aðstoðar þeirra tjáði sig með óhefðbundnum tjáskiptaaðferðum og þurfti mikinn stuðning í daglegu lífi. Um er að ræða eigindlega rannsókn sem byggir á félagslegum tengslaskilningi á fötlun, hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf og hugmyndum um aðstæðubundið sjálfræði. Gögnin voru skoðuð í ljósi kenninga um yfirfærslu náms í fullorðinsfræðslu og hugmynda um virkan stuðning (e. active support). Í niðurstöðunum kom meðal annars fram hvernig viðmælendur mótuðu hlutverk sitt og greind voru þrjú ólík hlutverk aðstoðarfólks sem í verkefninu nefnast milliliðurinn, stuðningsaðilinn og hinn hlutlausi fylgdarmaður.