Sendiherrar um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks
Frá árinu 2011 hefur Fjölmennt annast kynningu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í formi verkefnis sem nefnist „Sendiherrar samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks“. Verkefni þetta var sett á laggirnar að beiðni Landssamtakanna Þroskahjálpar og unnið í samstarfi við samtökin. Verkefnið var fyrsta árið styrkt af PROGRESS áætlun Evrópusambandsins. Þegar því lauk var gerður samningur við velferðarráðuneyti til þriggja ára svo halda mætti verkefninu áfram. Sá samningur var síðan framlengdur út árið 2017. Sendiherrarnir fara víða um land, kynna samninginn og fjalla um réttindamál fatlaðs fólks. Þeir hafa unnið töluvert með réttindagæslumönnum fatlaðs fólks um land allt.
Verkefnastjóri er Harpa Björnsdóttir. Sendiherrarnir halda úti kynningum á samningnum og hægt er að panta kynningu með því að senda beiðni á netfangið fjolmennt@fjolmennt.is