Orðfæri og hugtakaskýringar

Allir hafa mál – Jafnvel án tilætlunar, ef einhver túlkar viðbrögð þeirra og bregst við á móti.  

Allir tjá tilfinningar og hugarástand, áhuga og vilja með einhverju móti – það er mál, þótt það sé hjá sumum hvorki skipulagt né kerfisbundið. 

Það að vera til staðar og eiga sameiginlega athygli um það að vera saman er jafn mikilvægt og að miðla upplýsingum um staðreyndir, fyrirmæli, skoðanir eða óskir.  

Þannig felst í tjáskiptum mikið meira en það eitt að færa upplýsingar á milli aðila.  

Í fræðsluefni frá Önnu Soffíu Óskarsdóttur koma oft fyrir ákveðin hugtök, sem ef til vill eru ekki öllum töm. Þess vegna eru hér fáeinar hugtakaskýringar, til að tryggja skilning. 

  • Tjáskiptahömlun snýst um að fatlaður einstaklingur geti ekki vegna fötlunar sinnar tjáð sig með sama móti og hver sem er eða tekið við upplýsingum með sama hætti og aðrir. Sá eða sú sem er með tjáskiptahömlun hefur þannig takmarkað formlegt mál, talað eða táknað og hefur því þörf fyrir aðlagaðar eða óhefðbundnar leiðir til að tjá sig eða eiga samtal – samspil við annað fólk, eða aðgang að upplýsingum í umhverfi sínu 

  • Félagi í tjáskiptum er hver sá sem tekur þátt í samtali eða samspili hér og nú. Stundum er talað um félaga sem einstaklinginn með tjáskiptahömlun, þar sem  
    Fær félagi er sá ófatlaði sem ber samtalið uppi með viðeigandi stuðningi  

  • Annar er hver sá sem er í samskiptum við hinn fatlaða 
    Mikilvægur annar er sá sem er hinum fatlaða mikilvægur, getur verið náinn aðstandandi, mikilvægasti aðstoðarmaðurinn, verkstjórinn, vinurinn eða hver sá sem viðkomandi upplifir mikilvægastan eða nánastan hér og nú 

  • Tjáskiptatækni er hér notað um hverja þá leið sem notuð er til óhefðbundinna tjáskipta. Aðferðir í samtali, hlutir, pappírsgögn og talvélar eða tölvur og snjalltæki vísa til tjáskiptatækni 

Kerfisbundið mál – skipulagt mál – mál 

  • Kerfisbundið mál er notkun táknkerfis s.s. talmáls, ritmáls, táknmáls, bliss, mynd- eða hluttáknakerfis eða annarra táknkerfa. Það getur verið flókið og borið óhlutbundna merkingu hugtaka, eða einfalt og hlutlægt með einföldum yrðingum 

  • Að tjá sig að einhverju leyti með stökum táknum, orðum eða merkjum er stundum áfangi á leið að kerfisbundnu máli, en alltaf að einhverju marki skipulagt mál  

  • Að tjá sig með hljóðum, svipbrigðum, látbragði og tilfinningaviðbrögðum getur verið skipulagt mál, en er alltaf mikilvægt mál 

 

tjáskipti

Til baka