Megingildi Fjölmenntar

MENNTUN

Öll getum við lært - nám er fyrir okkur öll

MenntunFjölmennt er framsækin símenntunar stofnun sem býður upp á fjölbreytt tækifæri til menntunar og fræðslu. Lögð er áhersla á að fylgjast vel með því sem samfélagið hefur upp á að bjóða hverju sinni og þróa námskeið í samræmi við það. Fjölmennt leggur metnað sinn í að hvert námskeið mæti þörfum, áhuga og lífsstíl sérhvers þátttakanda.

Fjölmennt kemur til móts við alla þátttakendur af fagmennsku og alúð og á þeirra forsendum. Allt námið byggist á virðingu og djúpri sannfæringu um gildi menntunar fyrir okkur öll. Lögð er áhersla á að koma auga á styrk og möguleika hvers og eins, í stað þess að stefna að fyrirfram gefnum hugmyndum um árangur.

Námið byggist á upplifun, fræðslu og sköpun svo að þátttakendur geti í auknum mæli notið þeirrar færni sem í þeim býr. Námið er með ýmsu sniði, allt frá markvissri upplifun yfir í samfelldan námsferil um ákveðið námsefni. Öll námskeið eru byggð á traustum kennslufræðilegum grunni. Skipulagning og hönnun námskeiða er ávallt leidd af innsæi í aðstæður væntanlegra þátttakenda með viðeigandi kennslufræðileg leiðarljós í huga. Fjölmennt er leiðandi í nýjungum í námi og kennsluháttum. 

Fjölmennt leggur áherslu á samstarf við aðrar menntastofnanir í anda samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem kveður á um jafnan aðgang að námi.

 

VALDEFLING

Öll eigum við rétt á að ráða eigin lífi og viljum að okkar sé virtur

Valdefling

Nám í Fjölmennt stuðlar að valdeflingu þátttakenda. Eitt helsta markmið starfseminnar er að fjölga tækifærum þeirra til að ráða eigin lífi og aðstæðum, að velja og ákveða. Í þeim anda geta þátttakendur haft áhrif á mótun eigin náms; viðfangsefni, framvindu og kennsluaðferðir. Starfsfólk leitar nýrra leiða til aukinnar samfélagsþátttöku og skapar vettvang til umræðu. Hvert og eitt okkar skiptir máli, á sína rödd í hópnum, fær hlustun og nýtur virðingar. Fylgst er vel með umræðu um mannréttindi, einkum mannréttindi fatlaðs fólks.

 

SAMSTARF

Gott samstarf byggist á gagnkvæmri virðingu

Samstarf

Starfsfólk Fjölmenntar leggur sig fram um að eiga gott samstarf við þátttakendur og aðstandendur þeirra. Samstarfið byggist á heiðarleika, trausti og virðingu og eru þarfir og óskir þátttakenda ætíð hafðar að leiðarljósi. Starfsfólk Fjölmenntar starfar náið saman og leitar samstarfs við aðra fagaðila sem láta sig velferð þátttakenda varða. 

Samstarf við þátttakendur um innihald náms, námsleiðir og kennsluaðferðir getur skipt sköpum um vellíðan, upplifun, námsárangur og það hvernig námið nýtist í daglegu lífi. Samstarf við aðstandendur og aðstoðarfólk þátttakenda í kennslustundum og utan þeirra  skiptir miklu máli svo að árangur náist í náminu en verður ævinlega að vera á forsendum þátttakenda. Fjölmennt leggur áherslu á fræðslu til starfsfólks síns og samstarfsaðila í formi ráðgjafar og fræðslu.

 

SVEIGJANLEIKI

Sveigjanleiki og aðlögun að þörfum hvers þátttakanda er lykillinn að árangri

Sveigjanleiki

Námsframboð Fjölmenntar er fjölbreytt og felur í sér sveigjanleika til að laga allt nám að þörfum hvers og eins, hvort sem litið er til kennsluaðferða, samsetningar hópa, einstaklingskennslu eða aðstöðu í kennslu rými. Námskeiðin eru einstaklingsmiðuð og þátttakendur geta haft áhrif á innihald námsins eftir því sem hugur hvers einstaklings  stendur til. Kennslan tekur mið af styrkleika hvers og eins. Öllum þátttakendum er mætt þar sem þeir eru staddir og fundin leið sem hentar best hverjum og einum.

 

Til baka