Evrópustyrkir Erasmus til eflingar fullorðinsfræðslu

Undanfarin ár hefur Fjölmennt fengið Erasmus styrki Evrópusambandsins til að senda starfsfólk í námsferðir til stofnanna sem sinna fullorðinsfræðslu á einn eða annan hátt fyrir fólk með þroskahömlun. 

Síðustu ferðir starfsmanna voru til Glad Fonden í Danmörku, sem meðal annars rekur sjónvarpsþætti, veitingaþjónustu og vöruhönnun. Tveir starfsmenn kynntu sér starfsemina almennt og skipulag hennar, og aðrir tveir kynntu sér sérstaklega veitingaþjónustu og veitingarekstur en einnig vöruhönnun. Áður hafa tónlistarkennarar sótt heim Drake Scotland tónlistarstofnunina í Skotlandi. Kennarar hafa líka sótt námskeið í að segja sögur með fólki með margvíslegar fatlanir auk þroskahömlunar og heimsótt heimili og dagþjónustu fyrir einhverft fólk í Bretlandi. Fyrsta ferð Fjölmenntar með Erasmus styrk var farin árið 2014 og skoðað hvernig Danir voru að þróa notkun spjaldtölva í starfi með fullorðnu fólki með þroskahömlun.

 

Silver age learning, þróunarverkefni um nám fyrir eldra fólk 

Nú tekur Fjölmennt þátt í þróunarverkefni á vegum Erasmus ásamt fjórum öðrum Evrópulöndum um þróun námskeiðaraðar fyrir eldra fólk. Eldra fólk almennt er ekki markhópur Fjölmenntar en óskað var eftir þátttöku Fjölmenntar vegna þekkingar og reynslu af að aðlaga nám að ólíkum námsþörfum. Við gerum ráð fyrir að fá til samstarfs símenntunarstöð utan Fjölmenntar.

Námskeiðatilboð fyrir eldra fólk hefur oft beinst að tómstundum, en námskeiðaröðin sem ætlunin er að þróa beinist meira að breytingum sem fylgja hækkandi aldri, virkni, vellíðan og lífsgæðum. Námstilboð fyrir aldraða getur þurft að þjóna fólki á mjög breiðu bili hvað varðar færni og heilsu og þarfnast einstaklingsmiðaðrar nálgunar og fjölbreyttrar aðlögunar eigi það að skapa raunverulegan ávinning varðandi dagleg lífsgæði og virkni og velferð aldraðs fólks.

Hér eru meiri upplýsingar um verkefnið á pdf formi