Skynjun og náttúruupplifun
Hljóð, áferð, litbrigði og lykt, sem tengjast náttúrunni, eru færð inn í kennslustofuna. Við vinnum með náttúruna út frá þeirri árstíð sem við erum stödd í með fræðslu, upplifun, uppgötvun og rannsókn. Lögð er áhersla á að þátttakendur finni fyrir öryggi í aðstæðum og njóti hughrifa sem kvikna í augnablikinu.
Kennslustundin skiptist í þrennt. Í fyrsta hluta vinnum við með náttúruna og skynjun hennar með því að snerta, hlusta, skoða og finna ilm. Í öðrum hluta er farið í slökun þar sem við komum okkur þægilega fyrir eins og okkur hentar með púða, teppi og dempum ljós. Í þriðja hluta hlustum við á tónlist sem lætur okkur líða vel og vekur okkur þægilega upp.
Kennslustofan er síbreytileg eftir árstíðum og viðfangsefni tímans. Unnið að því að útbúa fallegt og þægilegt umhverfi sem vekur forvitni.
Leitast er við að skapa tækifæri fyrir tjáskipti og þátttöku á eigin forsendum.
Kennt er einu sinni í viku, 1,5 kennslustundir í senn.
Nánari tímasetning auglýst síðar.
Reynt verður að fara eftir óskum umsækjenda um tímasetningar.
Vinsamlega takið fram í athugasemdadálki hvaða tími kemur alls ekki til greina.
Bréf sem staðfestir inntöku á námskeið mun berast eftir miðjan desember.