Gildi Fjölmenntar
Símenntunar- og þekkingarmiðstöðin Fjölmennt var stofnuð árið 2002 og á því 20 ára afmæli í ár. Ýmislegt hefur verið gert í tilefni þess og ber þar hæst ráðstefnan Nám er fyrir okkur öll sem haldin var í lok mars. Um 200 manns sóttu ráðstefnuna sem var árangursrík og skemmtileg. Einnig var á vorönninni haldin vegleg árshátíð og glæsilegir vortónleikar.
Í tilefni afmælisársins hefur verið unnið að nýjum gildum Fjölmenntar þar sem sett er í orð hvað Fjölmennt vill hafa að leiðarljósi í starfi sínu. Gildin eiga ekki bara að vera orð á blaði, þau eiga að vera sýnileg í starfinu.
Gildi Fjölmenntar eru fjögur. Fyrsta gildið er menntun. Fjölmennt er símenntunarstöð sem býður upp á fjölbreytt tækifæri til menntunar og fræðslu. Við leggjum áherslu á að námið sem við bjóðum sé í takt við óskir þeirra sem sækja nám hjá Fjölmennt.
Annað gildi er valdefling. Við viljum að þau sem eru í námi hjá Fjölmennt eflist í að ráða meiru í eigin lífi. Við erum öll jafn mikilvæg og viljum að það sé hlustað á okkur og tekið mark á því sem við segjum. Við viljum að þátttakendur á námskeiðum hafi möguleika á að koma með tillögur að því sem þau vilja læra.
Þriðja gildið er samstarf. Starfsfólk Fjölmenntar vill eiga gott samstarf við þátttakendur á námskeiðum og aðstandendur þeirra. Við viljum að efni námskeiða nýtist í daglegu lífi og þá er samstarf oft nauðsynlegt.
Fjórða gildið er sveigjanleiki. Þegar námskeið eru skipulögð er hugsað fyrir því að þátttakendur hafi bæði gagn og gaman af. Stundum þarf að breyta námskeiði til þess að það henti þeim sem sækja það og aðlaga að vilja og þörfum þeirra.
Þessi gildi eru okkur mikilvæg í allri starfsemi Fjölmenntar.