Handbók um auðlesið mál er komin út!

Handbók um auðlesið mál er komin út og hægt að nálgast hana endurgjaldslaust á vefnum hér. Með útgáfu bókarinnar er öllum þeim sem birta efni opinberlega gert kleift að bjóða upp á efni sitt á auðlesnu máli.

Handbókin inniheldur skýrar leiðbeiningar um hvernig á að skrifa texta svo hann sé á auðlesu máli. Handbókin byggir að stórum hluta á Leichte Sprache – Das Regelbuch sem er handbók þýska rannsóknarsetursins Forschungsstelle Leichte Sprache við háskólann í Hildesheim. Snorri Rafn Hallsson verkefnastjóri Miðstöðvar um auðlesið mál þýddi bókina og staðfærði.

Útgáfa bókarinnar er styrkt af félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og er útgáfa handbókarinnar hluti af landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks.

Í frétt frá ráðuneytinu segir:

"Aðgengi að upplýsingum er grundvallarréttur allra og í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er sérstaklega kveðið á um að aðildarríki skuli tryggja aðgengi fatlaðs fólks að upplýsingum. Þekking og skilningur á heiminum í kringum okkur er grunnur að því að geta tekið upplýstar ákvarðanir, lifað sjálfstæðu lífi og nýtt þau réttindi og tækifæri sem okkur bjóðast. Til að tryggja að allir hafi raunverulegan aðgang að upplýsingum þarf oft að einfalda framsetningu texta og aðlaga hana að þörfum fjölbreyttra hópa samfélagsins. Ein leið til þess er að nota auðlesið mál."

Við fögnum útgáfu handbókarinnar og vonumst til þess að hún nýtist sem flestum!

 

Meðfylgjandi eru myndir þegar Snorri Rafn afhendir Ingu Sæland félags- og vinnumarkaðsráðherra, fyrsta eintak handbókarinnar.