List án landamæra sett 15. október

Listahátíðin, List án landamæra, var sett 15. október í Gerðubergi og setti Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hátíðina.

Þessar tvær vikur sem hátíðin stendur yfir eru haldnar listsýningar og smiðjur víðs vegar um borgina og þ.á.m. í Gerðubergi, Borgarbókasafninu í Gerðubergi, Hafnarborg, Menningarhúsum í Kópavogi, Ygallery og Ráðhúsi Reykjavíkur. Listamaður hátíðarinnar í ár er Elfa Björk Jónsdóttir og sýnir hún verk sín í Hafnarhúsinu í Hafnarfirði. Einnig stendur hátíðin fyrir málstofu um inngildingu og er hún haldin í Gerðubergi miðvikudaginn 26. október kl 17:00-19:00.

Í lok hátíðarinnar, 29. október kl. 13-17, verður haldinn listmarkaður í Ráðhúsi Reykjavíkur með uppákomum, tónlist og gjörningum.

List án landamæra er listahátíð sem leggur áherslu á list fatlaðs listafólks og er tilgangur hátíðarinnar að auka menningarlegt jafnrétti og fjölbreytni með því að skapa faglegan vettvang og tækifæri fyrir fatlað listafólk. Hefur hátíðin jafnframt stuðlað að aukinni umræðu um ímynd fatlaðs listafólks og lagt áherslu á að list þeirra sé metin til jafns við list ófatlaðs listafólks innan listheimsins. Hér má nefna málþingið "Samfélagsleg áhrif birtingarmynda í sviðslistum" sem haldið haldið var 11. október í Þjóðleikhúsinu sem var gríðarlega þarft framtak í þessa umræðu.

Hátíðinni lýkur 30. október. Sjá nánar um dagskrá hátíðarinnar á www.listin.is