María Hreiðarsdóttir - Minning
Verkefnið Sendiherrar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hófst árið 2011. Í upphafi var auglýst eftir fólki til að taka þátt í verkefninu og það kom ekki á óvart að María Hreiðarsdóttir vildi gerast sendiherra. Hún var alla tíð mikil baráttukona fyrir réttindum fatlaðs fólks. Sendiherrarnir skiptu með sér að verða sérfræðingar í greinum samningsins og valdi María greinina um virðingu fyrir heimilis- og fjölskyldulífi. Hún brann fyrir því málefni og í kynningum miðlaði hún af eigin reynslu. María lét til sín taka í mörgun baráttuhreyfingum og það munaði svo sannarlega um hennar framlag.
María lést þann 7. maí og er útför hennar gerð í dag. Það var mikið áfall að heyra af andláti Maríu og stórt skarð höggvið í raðir sendiherranna og allra þeirra sem berjast fyrir mannréttindum. María var frábær félagi og fyrirmynd og hennar verður minnst fyrir sína miklu baráttu fyrir réttindum fatlaðs fólks. Við vottum Ottó Bjarka syni hennar, foreldrum, systkinum og öðrum ástvinum okkar dýpstu samúð.