Takk fyrir samstarfið Anna Fía, Ásrún, Ásdís og Kristín!
Á haustmánuðum létu fjórir kennarar af störfum eftir langt og farsælt starf hjá Fjölmennt. Þetta eru þær Anna Filippía, Ásdís, Ásrún og Kristín.
Anna Filippía Sigurðardóttir, eða Anna Fía eins og hún er alltaf kölluð, hóf störf hjá Fjölmennt árið 2002. Hún kenndi á ýmsum námskeiðum og var jafnframt verkefnastjóri náms fyrir fólk með geðrænar áskoranir frá árinu 2012 til ársins 2022 þegar deildin var formlega lögð niður. Árið 2004 hóf hún að kenna bóklega hluta ökunáms í samstarfi við Ökuskólann í Mjódd. Var það nýjung í starfsemi Fjölmenntar og því frumkvöðlastarf. Anna Fía mun áfram sinna þeirri kennslu þó hún hafi nú að öðru leyti látið af störfum hjá Fjölmennt.
Ásdís Guðmundsdóttir kom til starfa hjá Fjölmennt árið 2002 en hún kenndi áður við Fullorðinsfræðslu fatlaðra, sem síðar varð að Fjölmennt. Ásdís hannaði og kenndi á margvíslegum námskeiðum svo sem Manstu gamla daga og Gaman saman ásamt ýmsum valdeflingar- og sjálfstyrkingarnámskeiðum. Hún var jafnframt fyrsti verkefnastjóri verkefnisins „Sendiherrar sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks“ og átti stóran þátt í hversu farsælt verkefnið varð.
Ásrún Inga Kondrup hóf störf hjá Fjölmennt haustið 2007. Hún er tónlistarkennari að mennt og því var tónlist hennar aðalfag. Hún kenndi jafnframt og kom að hönnun ýmissa námskeiða svo sem Litir og tónar og Slökun og náttúruupplifun. Ásrún var í hópi kennara sem vann að gerð nýrrar námskrár Listnámsbrautar og var einnig natin við að finna nýjar leiðir í tónsköpun fyrir þátttakendur Fjölmenntar.
Kristín Eyjólfsdóttir hóf störf hjá Fjölmennt haustið 2002. Hún hefur ásamt kennslu sinnt ýmsum störfum í gegnum tíðina. Hún hefur séð um utanumhald með námskeiðum hjá þeim menntastofnunum sem Fjölmennt hefur verið í samstarfi við og nú seinni ár sinnt verkefnastjórn með inntöku og umsýslu námskeiða hjá Fjölmennt. Hún hefur einnig sinnt námsefnisgerð og er til dæmis annar höfundur fræðsluefnis um stofnun og starfsemi notendaráða.
Allar hafa þessar konur sett mark sitt á starfsemi Fjölmenntar og átt þátt í faglegri þróun stofnunarinnar í gegnum árin. Eru þeim þökkuð frábær störf og óskað heilla í öllu því sem þær taka sér fyrir hendur.