Til þátttakenda á námskeiðum Fjölmenntar

Í þau tvö ár sem Covid faraldurinn hefur staðið yfir höfum við að mestu getað haldið úti eðlilegri starfsemi ef frá er talið tímabil í byrjun faraldurs. En nú hefur orðið breyting á og þessa dagana herjar Covid veiran hressilega á starfsfólk Fjölmenntar og fjölskyldur þeirra. 

Þegar kennari er fjarverandi reynum við að fá annan kennara til að hlaupa í skarðið en ef það tekst ekki verðum við því miður að fella niður námskeiðstíma. Vonandi fer þessu ástandi að ljúka þannig að starfsemin komist í eðlilegt horf.
Vegna mikilla afboðana á námskeið munum við ekki senda út reikninga fyrir námskeiðsgjöldum fyrr en í byrjun apríl. Ef þátttakandi hefur verið afboðaður vegna fjarveru kennara tökum við tillit til þess og lækkum reikninginn sem því nemur.
Við horfum bjartsýn til vorsins. Í ár á Fjölmennt 20 ára starfsafmæli og af því tilefni stendur til að halda ráðstefnu um menntamál fatlaðs fólks þann 30. mars næstkomandi.
Undanfarin tvö ár höfum við ekki getað haldið tónleika eða vorhátíð en nú stefnum við á að gera það veglega í vor. Vortónleikar verða föstudaginn 6. maí og vorhátíðin föstudaginn 20. maí. Nánari upplýsingar um þessa atburði verða sendar þegar nær dregur en endilega takið þessa daga frá.

Með bestu kveðju,
Helga Gísladóttir

forstöðumaður